|
|
ANONYMOUS
Title:BANGSÍMON
Subject:FICTION
Íslensk ævintýri
BANGSÍMON
Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu son sem Sigurður hét. Í garðshorni skammt þaðan bjó karl og kerling; hann hét Bangsímon. Þau áttu eina dóttur sem Helga hét. Hún var jafngömul Sigurði kóngssyni og léku þau sér oft saman í æsku.
Svo bar við að kóngur missti drottningu sína; syrgði hann hana mjög og sat oft á haugi hennar og sinnti ekki ríkisstjórn. Ráðgjöfum hans og hirðmönnum þótti svo mikið mein í þessu að þeir gengu fyrir kóng og báðu hann hætta harmatölum sínum og buðust til að fara og leita honum kvonfangs. Honum líkaði þetta ráð vel, en bað þá um að taka hvorki eyjafífl, annesjafljóð né skógarkonu.
Þeir hétu honum góðu um það og bjuggust síðan til ferðar. Fengu þeir svo hafvillur miklar og sjóvolk og gekk þeim seint ferðin. Loksins sáu þeir sorta mikinn fyrir stafni og það með að þetta var eyland. Þeir gengu á land og fóru þangað til þeir komu að tjaldi einu. Sáu þeir þar fríða konu sem sat á stóli og var að greiða hár sitt með gullkambi. Hún spurði þá hvert þeir væru að fara og hvert erindi þeirra væri. En þeir sögðu til hið sanna.
Hún sagði: "Það er þá líkt á komið með kóngi yðar og mér; því fyrir stuttu hef ég misst mann minn. Hann var yfirkóngur tuttugu smákónga; víkingar réðust á ríkið, kóngur féll, en ég flýði hingað."
Báðu þeir hennar svo til handa kóngi sínum og tók hún þeim málum vel. Síðan stigu þau öll á skip og gekk þeim ferðin vel heim.
Þegar kóngur sá til ferða þeirra lét hann aka sér í vagni til strandar og bauð hann drottningu að stíga í vagninn hjá sér og var þeim svo báðum ekið heim.
Með því kóngi geðjaðist vel að drottningu þessari hóf hann bónorð sitt til hennar og tók hún því vel. Lét hann þá efna til mikillar veislu og drakk brúðkaup sitt til hennar. Sigurður kóngsson skipti sér lítið af stjúpu sinni og vildi sem minnst eiga saman við hana að sælda.
Nú líður og bíður þangað til drottning verður veik og þótti kóngi það illt. Spurði hann þá drottningu hvort þetta mundi verða helsótt eða skrópasótt. En hún lést ætla að það mundi verða helsótt og bað hún kóng að gera það fyrir sig að láta Sigurð son sinn vaka yfir sér þrjár fyrstu næturnar í herbergi því sem hún tók til þegar hún væri dáin.
Fór nú svo sem drottning gat til að þetta var helsótt og lét kóngur flytja lík hennar í herbergi það sem hún hafði til tekið og búa um það eins og hún hafði sagt fyrir. Síðan bað kóngur son sinn að vaka yfir líkinu, en hann mæltist undan því í fyrstu. Kóngur varð þá byrstur við hann og skipaði honum það svo Sigurður þorði ekki annað en lofa að gera það.
En af því hann var bæði myrkfælinn og líkhræddur fór hann til Helgu karlsdóttur og bað hana að fá Bangsímon föður sinn til að vaka fyrir sig. Karl var tregur til þess í fyrstu, en lét þó til leiðast og hét að vaka fyrstu nóttina; fór hann svo heim í herbergi það sem líkið lá í um kvöldið.
En þegar hann kom þar inn spyr drottning: "Hver er þar?"
"Bangsímon karl í garðshorni," segir hann.
"Svei þér, skömmin þín; ekki átt þú að vaka yfir mér; Sigurður kóngsson á að vaka yfir mér. Eru fölir fætur mínir?" segir hún.
"Fölir svo sem grasstrá," segir hann.
"Þá er best að bera sig til," segir hún.
Með það reis hún upp af líkbörunum og réðst á Bangsímon og áttust þau við allt til dags.
Þegar dagur rann lagðist hún fyrir eins og áður, en karl fór heim í kot sitt. Allt eins fór aðra nóttina og eftir það neitaði karl með öllu að vaka hjá henni þriðju nóttina, en gerði það þó fyrir bænastað dóttur sinnar að vera þar þá einu nóttina sem eftir var. En áður en hann fór sagði hann þeim Sigurði og Helgu að þau mættu giftast að þremur árum liðnum ef hann yrði ekki kominn aftur innan þess tíma.
Fór karl svo heim í kóngsríki og í herbergi það sem líkið var í og fórust þeim drottningu og honum sömu orð í milli og áður og glímdu síðan til dags.
Þegar dagur rann varð hún að gammi, en hann að flugdreka; flugust þeir á í loftinu og flugu yfir láð og lög uns þau komu að landi einu; þar varð drottning undir í skiptunum og ætlaði karl að bíta hana á barkann. Baðst hún þá friðar og hét karli að launa honum lífgjöfina þegar hún væri orðin kóngsdóttir í því ríki.
"Hvernig ætlar þú að fara að því?" segir karl.
"Ég ætla að gera mig að dálitlu barni og láta kónginn finna mig þegar hann fer á dýraveiðar," segir hún.
Karl lét hana þá lausa og fór hún í skóg einn mikinn skammt þaðan.
Næsta dag eftir fór kóngurinn í ríkinu á veiðar og fann í skóginum frítt meybarn; tók hann það heim með sér og ól það upp sem eigin dóttur sína því þau kóngur og drottning voru áður barnlaus. Mær þessi dafnaði svo fljótt að furðu gegndi.
Karlinn Bangsímon hafði komið til kóngshallar og dvaldist þar; var hann látinn berja fisk og gera annað slíkt.
Þegar fram liðu stundir tók fósturdóttir kóngsins upp á því að bíta sig í fingurna svo blæddi úr; sagði hún að karlinn sem hérna væri færi svona með sig. Þótti kóngi og drottningu mjög fyrir við karl; en þó var hann ekki rekinn burtu að heldur.
Einu sinni þegar kóngsdóttir þessi var á gangi ein sér spurði Bangsímon hana nær hún ætlaði að launa sér lífgjöfina. Hún lést mundi gera það þegar hún væri orðin kóngsdrottning þar í ríkinu.
"Hvernig ætlarðu að fara að því?" segir karl.
"Ég ætla," segir hún, "að biðja drottninguna að sýna mér gripasafnið því hún lætur allt eftir mér. ég ætla að láta hana fara upp stigann á undan mér sem þangað liggur upp; en sjálf ætla ég á eftir og þegar hún er komin í efstu stigarimina ætla ég að kippa stiganum undan henni svo hún hálsbrotni, dysja hana þar undir stiganum, fara í fötin hennar, og svo ímyndar kóngurinn sér að ég sé konan hans."
Síðan skildu þau karl.
Fám dögum síðar saknaði kóngur dóttur sinnar og sagði drottning að líkast væri að fiskakarlinn sem hefði einlægt verið að hrekkja hana hefði séð fyrir henni. Var karl þá tekinn fastur og átti að leiða hann á bál og brenna hvernig sem hann bar það af sér að hann hefði drepið kóngsdóttur.
Var hann síðan leiddur að bálinu og voru þau kóngur og drottning þar við einnig. En áður en karli væri hrundið á bálið baðst hann þess að kóngur veitti sér eina bæn og þó ekki líf. Kóngur hét honum því. Bað karl þá drottningu að segja ævisögu sína. Hún sagði það væri fljótgert því hún hefði verið kóngsdóttir og síðan hefði hún gifst kónginum sem hún ætti nú og síðan vissu allir um framferði sitt.
Karl sagði þá upphátt alla ævi hennar frá því hún kom þar á land. Brást hún þá í flugdreka líki og flaug á karlinn. En hann tók belg undan skikkju sinni og kastaði yfir höfuð henni svo hún lenti á bálinu og brann.
Réð karl þá kóngi til að láta grafa upp hjá stiganum sem lá upp í gripasafnið. Var það svo gert og fannst allt eins og karl hafði frá sagt; þakkaði kóngur karli með mörgum fögrum orðum að hann hefði frelsað sig frá þessari ókind, gaf honum skip og menn á og sigldi karl síðan heimleiðis.
En ef Sigurði er það að segja að hann hafði misst föður sinn meðan Bangsímon var erlendis og hafði tekið við ríkisstjórn. Þegar karl kom heim var Sigurður að halda brúðkaup sitt til Helgu; því þá voru liðin þrjú ár frá því karl fór að heiman; varð þar því hinn mesti fagnafundur.
Lifðu þau hjón síðan lengi saman með veg og virðingu og lýkur svo sögunni af Bangsímon.
...
|
|
|