ANONYMOUS

Title:ÁSMUNDUR KÓNGSSON OG SIGNÝ SYSTIR HANS
Subject:FICTION Scarica il testo


Íslensk ævintýri
ÁSMUNDUR KÓNGSSON OG SIGNÝ SYSTIR HANS



Eitt sinn réð konungur nokkur löndum; hann var kvæntur og átti tvö börn við konu sinni, son og dóttur; hét sonur hans Ásmundur, en Signý dóttir; þau voru mannvænlegust kóngabarna er menn höfðu spurn af á þeim tíma og voru þeim kenndar allar listir sem konungbornum börnum hæfði að kunna; ólust þau upp hjá föður sínum í miklu eftirlæti.
Kóngur gaf Ásmundi syni sínum eikur tvær sem stóðu úti á skógi og hafði hann það að skemmtun að hola þær innan og búa til Í þeim alls konar herbergi; gekk Signý oft með honum og dáðist að eikunum og vildi hún eiga þær með honum. Það lét hann eftir henni og bar hún þangað alls konar gimsteina og dýrgripi sem móðir hennar gaf henni.
Eitthvert sinn bar svo við að faðir þeirra fór í hernað, en á meðan tók drottning sótt og andaðist. Þá fóru systkinin út á skóg og settust í eikurnar; höfðu þau með sér nægan ársforða handa sér.
Nú er frá því að segja að í öðru landi ríkti kóngur einn; hann átti son er Hringur hét. Hringur hafði heyrt um vænleik Signýjar og ásetti sér að biðja hennar sér til handa; fær hann hjá föður sínum eitt skip til ferðar; gaf honum vel byri og kom við land þar sem Signý átti heima.
En sem hann ætlaði að ganga til hallar sér hann konu koma á móti sér forkunnar fríða og þóttist hann aldrei slíka séð hafa. Hann spurði hver þar færi, en hún kvaðst vera Signý kóngsdóttir. Hann spurði hana því hún færi ein. Hún sagði að það væri af sorg eftir móður sína, faðir sinn væri ekki heldur heima.
Kóngsson kvaðst hafa erindi til hennar fyrst svona væri komið, og væri það á þá leið að leita ráðahags við hana. Hún tók því vel, en bað hann til skipa ganga því hún kvaðst ætla lengra inn í skóginn; gengur hún nú til eikanna og rífur þær upp með rótum, leggur síðan aðra í bak, en aðra í fyrir, og ber þær til sjávar og veður með þær á skip út.
Gjörir hún sig fagra sem fyrri og segir kóngssyni að farangur sinn sé kominn; segist hún ekki annað fé eiga. Sigla þau nú heim og fagna foreldrar hans og systir honum vel. Hann fær Signýju fagran kastala og lætur setja eikurnar fyrir framan gluggana.
Eftir hálfan mánuð kemur hann út til hennar og segist innan fjórtán daga vilja gifta sig henni og fær henni um leið mjög vandað efni til brúðfata handa þeim báðum og skyldi hún sauma þau.
En er hann var burtu genginn kastar hún klæðunum á gólfið, ólmast svo og umsnýst; er hún þá orðin að versta flagði og segist ekki vita hvað hún eigi að gjöra við slíkt skart sem aldrei hafi á neinu snert nema að éta mannakjöt og bryðja hrossabein; ólmast hún nú enn meir og segist mega úr hungri deyja, því aldrei komi Járnhaus bróðir sinn með kisturnar eins og hann hafi lofað sér.
En í sama bili spretta þrjár fjalir upp úr kastalagólfinu og kemur þar upp jötunn með afarstóra kistu. Þau rífa bæði upp kistuna og er hún full með mannabúka; rífa þau það í sig og fer svo bróðir hennar niður aftur sama veg og sér engin vegsummerki á gólfinu. Þegar hún er búin að seðja sig ólmast hún enn meira en áður og þrífur klæðin og ætlar að rífa þau í sundur.
Nú er að segja frá kóngsbörnunum að þau eru í eikunum og hafa séð allar þessar aðfarir; biður þá Ásmundur Signýju að ganga út úr eikinni og ná klæðunum heldur en að heyra þessi óargalæti dag og nótt.
Signý gjörir það; saumar hún nú fötin á sex dögum sem best hún má, gengur síðan út með þau og kastar þeim á borðið. Skessan verður glöð við það.
Nú kemur kóngsson til hennar og fær hún honum fötin; dáðist hann að handbragði hennar og skildu þau með blíðu.
Skessan aðhefst nú allt hið sama sem fyrri þangað til Járnhaus kemur; sér nú Ásmundur allan þennan aðgang og gengur til fundar við kóngsson og biður hann að horfa um daginn á leik einn sem gjörist í kastala hinnar nýkomnu kóngsdóttur; verður honum flent við að heyra þetta um unnustu sína.
Þeir ganga nú báðir og fela sig á milli þilja þar sem þeir geta séð inn til hennar. Hamast hún nú sem fyrr og segir við Járnhaus þegar hann kemur: "Þegar ég er búin að eiga kóngsson skal ég lifa betur en nú, þá skal ég drepa allt pakkið í höllinni og koma með ætt mína, og þá held ég tröllin gleðji sig við mig og mann minn."
Verður kóngsson svo reiður við þetta að hann kveikir í kastalanum og brennir hann til kaldra kola. Ásmundur segir honum nú allt um eikurnar og undrast hann mjög fegurð Signýjar og þess sem þar inni var. Biður hann nú Signýjar systur Ásmundar, en Ásmundur systur Hrings; fara þau brúðkaup bæði fram. Ásmundur fer nú heim og til föður síns. Tóku þeir mágar ríki eftir feður sína og ríktu til ellidaga. Og lýkur svo þessari sögu.


...