ANONYMOUS

Title:SAGA AF FINNU FORVITRU
Subject:FICTION Scarica il testo


Íslensk ævintýri

SAGA AF FINNU FORVITRU

Maður er nefndur Þrándur; hann var lögmaður. Kona hans var önduð, þá er þessi saga gerðist. Hann var maður gamall og enn mesti spekingur. Hann átti tvö börn, son þann, er Sigurður hét, og dóttur þá, er Finna hét; hún var en vitrasta kona, og var mál manna, að hún vissi meira en fólk henni sagði.
Eitt sinn, þá faðir hennar reið til þings, sagði hún: "Mig grunar, faðir, að í þessari ferð muni mín beðið verða, en ég bið þig, að þú giftir mig ei, nema líf þitt liggi við."
Hann hét henni því og reið síðan til þingsins. Þar báðu Finnu margir göfugir menn, en hann sagði þeim öllum nei. Þá er lokið var þinginu, reið Þrándur lögmaður heim á leið, og eitt kvöld, þá er hann reið einn saman undan öllum sínum sveinum, kom til hans maður á jörpum hesti, heldur vígmannlegur; hann steig af baki og tók í taumana á hesti Þrándar og mælti: "Heill vertu, Þrándur lögmaður."
Þrándur tók kveðju hans og spurði hann að nafni. Hann kvaðst Geir heita og kvað það vera erindi sitt að biðja Finnu, dóttur Þrándar.
Þrándur mælti: "Ei mun eg þér hana gifta; mun hún sjálf högum sínum ráða."
Þá brá Geir sverði og setti fyrir brjóst Þrándi og bað hann annaðhvort gera, gifta honum konuna, eða hann mundi hann strax drepa; sá þá Þrándur ekki annan kost en lofa honum konunni, og skyldi hann koma að hálfsmánaðar fresti og sækja hana.
Síðan reið Þrándur heim, en Geir fór sína leið.
Þá Þrándur kom heim, stóð Finna úti og heilsaði föður sínum og sagði: "Er það, sem mér boðar hugur, að þú hafir mig manni gifta?"
Hann kvað það svo vera og sagði, að líf sitt hefði við legið. Hún sagði það nú svo mundi verða að vera; þó boðaði hugur sér, að það mundi henni ekki til mikillar gleði verða.
Að tilsettum tíma kom Geir að vitja konunnar; var þá við honum vel tekið. Hann kvaðst ekki lengi bíða mega, bað Finnu búa sig snarlega, því að morgni vildi hann burt. Hún gerði svo. Tók hún ekkert manna með sér frá föður sínum nema bróður sinn Sigurð.
Kvöddu þau svo Þránd og riðu sína leið þrjú saman, þar til þau komu að afrétt einni, sem ei voru í nema naut. Finna spurði Geir, hver það ætti; hann kvað það engan eiga nema sig og hana.
Annan dag komu þau að annarri afrétt, þar voru ekki í nema geldfé eitt. Finna spurði Geir, hver það ætti; hann kvað það engan eiga nema sig og hana.
Hinn þriðja dag komu þau að enni þriðju afrétt, þar voru ekki í nema hestar einir. Finna spurði Geir, hver það ætti; hann kvað það engan eiga nema sig og hana. Riðu þau svo þann dag allan.
Að kvöldi komu þau að húsabæ miklum; þar steig Geir af baki og bað Finnu með sér koma, sagði þar sín húsakynni vera. Finnu var þar vel fagnað; tók hún þar strax við öllum ráðum. Geir var við hana fár mjög, en hún lét ekki á sér festa. Sigurður bróðir Finnu var þar og vel haldinn.
Aðfangadagskvöld jóla vildi Finna láta þvo höfuð Geirs; var hans þá víða leitað, og fannst hann hvergi. Finna spurði fóstru Geirs, sem þar var og, hvort það væri hans vandi; hún sagði, að í langa tíma hefði hann engin jól heima verið, og grét þá stórum.
Finna bað fólk hans ekki leita, sagði hann mundi sér sjálfum heim skila, þá tíð væri. Hún bjó til veislu eftir vanda og lét ekkert á sér festa um burtveru Geirs.
Þá er lokið var veislunni og fólk var allt til svefns gengið, stóð Finna upp og tók Sigurð bróður sinn með sér; þau gengu til sjávar og hrundu fram bát og reru til einnar eyjar þar ekki langt frá.
Finna bað Sigurð gæta skipsins, meðan hún gengi á land; hann gerði sem hún bað. Síðan gekk hún á land og þar til hún kom að einu litlu húsi, þó vel byggðu; þar stóð hurð á hálfa gátt, ljós brann í húsinu. Þar var rekkja ein vel búin; þar sá hún Geir bónda sinn liggja í rekkjunni, og hafði konu í faðmi.
Finna setti sig á gólfið fyrir neðan rúmskörina og kvað vísu:
Sá eg suður til eyja,
sá eg þar ljós á lampa,
ljúfan mann á leiki
í línskyrtu hvítri;
hafði hár fyrir augum,
hvern annan vænleik meiri;
þeim einum mundi eg manni
mín til í huga segja.
Heitt skyldi aldrei unna
ungum sveini kvinna,
fyrr en fundið hefði
fasta ást í brjósti;
klók er karlmanns tunga,
kann þig ginna, svanni;
mörg verður tæld á táli,
trúðu aldrei gleðimáli.
Síðan gekk hún út og til bróður síns og bað hann róa í land og segja engum, hvar þau hefði verið. Hann hét henni því; reru þau síðan heim og létu sem ekki hefði verið.
Þá er lokið var jólunum, stóð Finna upp snemma morguns og gekk til skála þess, sem Geir og hún sváfu inni, þá hann heima var. Þá var Geir þar og gekk um gólf; barn lá þar í sænginni. Geir spurði Finnu, hver það barn ætti. Hún kvað það engan eiga nema sig og hann; hún tók barnið og fékk til fósturs fóstru Geirs. Leið svo það ár út, og varð ekki til tíðinda.
Önnur jól gekk allt með sama slag og en fyrstu, nema þá setti Finna sig á skörina fyrir rúminu og kvað vísu þessa:
Oft sit eg ein undir eiki
eins föl og nárinn bleiki,
ein verð eg sútum að samna;
sorginni fátt vill gamna;
hugur minn hvarflar víða,
hjartað mitt fyllist kvíða,
eg verð um eitt að þegja,
engum má eg það segja.
Hin þriðju jól var og búið til veislu, og var Geirs leitað, og fannst hann ekki. Finna bað fólk hans ekki leita.
Þá lokið var veislunni og fólkið var til sængur gengið, reru þau Sigurður og Finna til eyjar þeirrar, sem áður höfðu þau verið.
Þá bað Sigurður Finnu, að hann mætti með á land ganga; hún lét það eftir honum, en bað hann ekki orð tala. Þau gengu til hússins; þar bað Finna Sigurð bíða sín, meðan hún gengi inn; hann gerði svo. Finna gekk inn og setti sig á rekkjustokkinn og kvað vísu:
"Hér sit eg ein á stokki,
af mér er gleðinnar þokki;
tapað hefur seggurinn svinni
sumarlangt gleðinni minni.
Önnur hlaut þann er eg unna;
oft fellur sjór yfir hlunna."
Geir reis þá upp og mælti: "Það skal nú ekki lengur vera;" en konan, sem hjá honum lá í sænginni, féll i öngvit.
Finna tók vín og dreypti á varir henni; raknaði hún þá við og var en fríðasta mær.
Sagði þá Geir til Finnu: "Nú hefur þú mig úr stórum nauðum leyst, því þetta var nú hið síðasta ár, sem eg kynni leystur að verða. Faðir minn var kóngur og réð fyrir Garðaríki; þá er móðir mín var dauð, giftist faðir minn aftur einni ókenndri konu. Þá þau höfðu skamma stund saman verið, drap hún föður minn með eitri, en þá eg og þessi systir mín, sem Ingibjörg heitir, vildum ekki hennar ráðum að hlýða, lagði hún á mig, að eg skyldi eiga þrjú börn með systur minni, og ef eg fengi ekki þá konu, sem allt þetta vissi og þó yfir því þegði, skyldi eg verða að ormi, og systir mín skyldi verða að ótömdu trippi og ganga í afrétt með öðrum stóðhrossum; og nú hefur þú mig úr þessum nauðum leystan, og vil eg nú gifta þessa mína systur Ingibjörgu Sigurði bróður þínum. Þar með vil eg gefa honum allt það ríki, sem fyrr átti faðir minn."
Fóru þau svo öll í land og til bæjar Geirs. Var þá stofnað til nýrrar veislu og sent eftir Þrándi, föður Finnu, og drukkið festaröl Sigurðar og Ingibjargar.
Fór hann þá til Garðaríkis og vann það undir sig. Var þá stjúpa Geirs tekin og bundin milli tveggja hrossa, og tók sinn helminginn hvort. Réðu þau Sigurður og Ingibjörg fyrir Garðaríki í margar tíðir, en Geir varð lögmaður eftir Þránd. Þau áttu börn og buru.


...